Hengibrú tengir kalkún við vinkonu sína fiðrildið.
Og þvert á það sem maður gæti ímyndað sér ber marglyttan alltaf sigur úr býtum í kappsundi við steypireyðina. Því marglyttan þekkir betri leið. Steypireyðurin er síður en svo tapsár því hún verndar marglyttuna fyrir aðsteðjandi hættum. Þessi veröld er nefnilega stór og rúmar allt, ekki bara þetta ástríka heldur líka þetta hættulega og ógurlega. Og þessi veröld rúmar reyndar meira en allt. Hún kann að vera laus við hindranir og vegtálma. Hún tengir og mýkir, galdrar fram hengibrýr og kafarabúninga, skilning og samskipti með fulltingi sviflétts og magnaðs ímyndunarafls.

Í Útvarpi Dyndilyndi er hægt að hlusta á verk
Indru og Rikke.

Elísabet Indra Ragnarsdóttir:

Í minningunni finnst mér flestir leikir mínir sem barn hafa snúist um að búa til afdrep. Lök, dúkar, stólar, borð og rúm skópu hús og skip og kastala og tjöld sem veittu skjól gegn utaðanakomandi vá. Og gott var að hjúfra sig í afdrepinu sínu og finna fyrir öryggi þess og hlýju. Úti var nefnilega yfirleitt kalt og hvasst en inni hlýtt og notalegt. Hjá ömmum og frænkum leyndust líka skúmaskot og háaloft sem reyndust afar dýrmæt uppspretta nýrra afdrepa. Mikilvægasta framlagið til þessarar húsagerðarlistar var svo auðvitað ímyndunaraflið - sviflétt, vegvíst og alltaf til staðar. Í híbýlum marglyttu og steypireyðar, kalkúns og hákarls er öryggi og skjól en líka hið ófyrirséða og óvænta. Og þar er allt mögulegt. Dýrmæt er vinátta hákarls og kalkúns sem heldur á fund vinar síns í hafinu, íklæddur kafarabúningi.

Rikke Houd:

Ég átti mér eitt sinn leynistað uppi í stóru gömlu tré við dökkan danskan plægðan akur. Þar geymdi ég í svolítilli holu gamla kaffidós fulla af skeljum og glerbrotum sem sjórinn hafði fágað. Tuttugu árum síðar átti ég leið framhjá akrinum aftur, klifraði upp í tréð og fann kaffidósina. Sömu tilfinningu og greip mig við að finna dósina aftur á leynistaðnum fann ég þegar ég sá þessi hús. Það er einsog að tengjast einhverju undursamlegu, ég get ekki teygt út höndina og gripið það, bara verið til staðar.