w

Hvað eru listbúðir í myndlistaskóla?

Listbúðir í myndlistaskóla eru samstarfsverkefni Myndlistaskólans í Reykjavík og Grunnskóla Reykjavíkur, fyrir tilstuðlan Menntasviðs Reykjavíkurborgar.

Markmið Listbúða eru:
A) að fleiri börn á grunnskólaaldri eigi þess kost að kynnast vinnubrögðum á verkstæðum myndlistaskóla.

B) að víkka sjóndeildarhring nemenda gegnum sjónræna skynjun og persónulega listræna tjáningu og auka hæfni þeirra til að takast á við verkefni á skapandi hátt.

C) að þroska tengsl nemenda við umhverfi sitt, bæði náttúrulegt sem manngert, með það fyrir augum að efla næmi þeirra og virðingu fyrir því.

D) að styðja við og örva, eins og kostur er, þá myndlistarkennslu sem fer fram innan hins hefðbundna grunnskóla og að byggja upp samstarf fagskóla við grunnskóla á sviði sjónmennta. Verkefnið er því undirbúningur fyrir víðtækt samstarf grunnskóla og fagskóla myndlistar um listasmiðjur.


 

E) að kynna skólastjórnendum og almennum kennurum grunnskólans þá nálgun í kennslu og námi sem viðhöfð er innan myndlistaskólans og þá sýn sem liggur til grundvallar þeirri nálgun.

Fyrstu Listbúðirnar fóru af stað sem tilraunaverkefni vorið 2004, með samstarfi Myndlistaskólans í Reykjavík og Fossvogsskóla. Gafst það ákaflega vel og var ákveðið að halda því áfram og sækja jafnframt um styrk til að þróa verkefnið áfram svo hægt væri að bjóða fleiri skólum þátttöku. Árið 2006 fengu Listbúðirnar styrk úr Þróunarsjóði Menntaráðs og svo aftur árin 2008 og 2009. Auk menntaráðs styrktu Penninn og Glitnir verkefnið 2008–2009. Gerði þetta Myndlistaskólanum kleift að bjóða fleiri skólum til samstarfs.

Þeir skólar sem tekið hafa þátt í Listbúðum fram til þessa eru: Fossvogsskóli, Breiðagerðisskóli, Landakotsskóli, Ártúnsskóli, Breiðholtsskóli, Grandaskóli, Vesturbæjarskóli, Fellaskóli, Hvassaleitisskóli, Austurbæjarskóli, Melaskóli og Víkurskóli.

 

Viðfangsefni Listbúða getur verið margbreytilegt, en fram að þessu hafa þátttakendur í Listbúðum fengist við jafn ólík viðfangsefni og dýrafræði, stærðfræði og byggingarlist. Listbúðir eru fágætur vettvangur þar sem nemendur fá tækifæri til að sökkva sér í viðfangsefnið á forsendum hvers og eins. Í Listbúðum er svigrúm fyrir nemendur með þroskafrávik til að láta ljós sitt skína þar sem unnið er samfellt að einu verkefni. Í Listbúðir koma nemendur sem ólíklegt er að myndu sækja slíkan skóla ef verkefni sem þetta stæði ekki til boða.

Hér má sjá skýrslur/dagbækur frá fyrri Listbúðum:
Heimur dýranna
Stærðfræðileg fegurð
Hús, hvalir og köngulær
Línur og landslag - búa til borg
Himinn, jörð og byggðin á milli

2006 var að frumkvæði Myndlistaskólans og Fossvogsskóla samið við Skólaþróunardeild Háskólans á Akureyri um vinnslu rannsóknarskýrslu um Listbúðir. Rósa Kristín Júlíusdóttir lektor var fengin til verksins og var hún á vettvangi og safnaði rannsóknargögnum er Listbúðir stóðu yfir þetta vor. Skýrsluna má sjá hér.

 

Listbúðir eru líka endurmenntun fyrir kennara

Listbúðir eru að sönnu mikil upplifun fyrir nemendur og minning sem þeir geyma með sér lengi. En þær eru ekki síður mikilvæg reynsla fyrir kennarana sem fylgja nemendum sínum. Listbúðirnar eru enda líka hugsaðar sem endurmenntun fyrir kennara. Í Listbúðum kynnast kennararnir, ekki síður en nemendur, nýju umhverfi og nýrri nálgun við viðfangsefni. Mikið er lagt upp úr að undirbúa kennarana sem best fyrir Listbúðir.

Hugmyndin er að þeir séu virkir þátttakendur en ekki hljóðir áhorfendur eða agastjórnendur eingöngu, þótt kennarar Myndlistskólans leiði að sjálfsögðu verkefnið. Áður en Listbúðir hefjast eru kennarar boðaðir á fund í Myndlistaskólanum með kennurum Myndlistaskólans þar sem farið er yfir viðfangsefni Listbúða, skipulag og önnur hagnýt atriði. Þeir spreyta sig líka á verklegum æfingum til að vera betur undir það búnir að aðstoða nemendur í verkefnum Listbúða.