Byggingarlistbúðir


Þrisvar sinnum hefur byggingarlist verið viðfangsefni Listbúða í Myndlistarskólanum. Viðfangsefnið hefur þróast frá einum Listbúðum til annara, og það skoðað út frá nýju sjónarhorni í hvert sinn.

Þannig var viðfangsefni fyrstu byggingarlistbúðanna byggingarnar sjálfar og húsagerðin. Nemendur veltu fyrir sér grunnhugtökum í byggingalist eins og massa og grindarbyggingu, lærðu að lesa í byggingar í umhverfi sínu, rannsökuðu smátariði í Hallgrímskirkju og Hnitbjörgum í gegnum teikningu og spreyttu sig á byggingaverkfræði í stórum og smáum skala.
Sjá: Hús, hvalir og kóngulær.

Í öðrum byggingalistabúðunum var athyglinni meira beint að borginni, tilurð hennar og skipulagi. Nemendur lærðu hvernig landslag og aðstæður hafa áhrif á borgarmynduninna; að það skiptir máli hvort borg myndast við sjó eða í inni í miðju landi, en alltaf verða þær til þar sem er vatn og einhvers konar krossgötur.

 

Nemendur bjuggu til borgir og áttuðu sig á því að umhverfið hefur mikil áhrif á það hvernig borgin lítur út en ekki síður allar ákvarðanir mannanna og skipulag.
Og líka að þetta allt hefur ekki síður áhrif á lífið í borginni. Sjá: Línur og landslag - búa til borg.

Í þriðju byggingarlistbúðunum, Himinn, jörð og byggðin á milli, var fókusinn aftur settur á byggingarnar. Í þetta sinn veltu nemendur fyrir sér hvaða áhrif umhverfið og íbúarnir hafa á gerð þeirra. Börnunum var úthlutað ákveðnu svæði: landi, lofti, vatni (eða sjó) og svæði neðanjarðar, og áttu svo að velja ákveðið dýr sem á heimkynni á viðkomandi svæði. Þá settu þau sig í spor dýranna og bjuggu þeim híbýli. Híbýlin öll komu svo saman og mynduðu samfélag og þurfti þá að huga að tengingum á milli og samgönguleiðum. Listbúðirnar Himinn, jörð og byggðin á milli eru grunnurinn sem sýningin Dyndilyndi byggir á og upphafið að því mikla ævintýri.