Í listbúðunum Himinn, jörð og byggðin á milli, var viðfangsefnið byggingar/híbýli/bústaðir og áhrifin sem umhverfi og íbúar hafa á gerð þeirra. Skógi vaxið hitabeltið kallar á annars konar híbýli en snjóþungur norðurhjarinn og bústaður moldvörpunnar er alls ólíkur þeim sem haförninn velur sér.

Til að leggja áherslu á þetta voru börnin látin setja sig í spor dýra sem eiga heimkynni á ólíkum svæðum: á landi, í vatni, ofan eða neðan jarðar.Á einni viku risu bústaðir dýra í öllum sínum fjölbreytileika. Bústaður hins smæsta og hins stærsta, hins hægfara og hins hraðskreiða, hins vinsamlega og hins herskáa, hins hversdagslega og hins sjaldgæfa, framandi og forsögulega. Nemendur unnu í fyrstu sjálfstætt hver að sinni byggingu en ýtt var undir samkennd og samvinnu þegar byggingar færðust af vinnuborði í þéttari byggð og huga þurfti að sameiginlegum þörfum. Áhugavert var að fylgjast með hvernig eignaréttur vék fljótlega fyrir þörfinni fyrir haganlega gerða stíga, lyftur, tröppur og brýr til að greiða samgöngur milli ólíkra dýrategunda.