Nemendum var skipt niður á fjögur borð þannig að þrír til fjórir sátu saman. Hvít örk var lögð á hvert borð og nemendur límdu hana niður. Kennari gekk á milli og dreifði vatnsuppleysanlegum vaxlit. Nú áttu allir að ímynda sér að liturinn væri þau sjálf og þau væru stödd í rúminu sínu fyrr um morguninn. Nemendur lokuðu augunum, þreifuðu á blaðinu og settu síðan litinn út á jaðar blaðsins þar sem línuteikningin byrjaði.
Nú hófst ferðalag gegnum hugann og kennarinn leiddi þau frá rúminu þeirra gegnum morgunverkin út í daginn. Nemendur fylgdu leiðsögn kennarans og hreyfðu litinn löturhægt með tilliti til ferða sinna án þess að slíta línuna. Með lokuð augun ferðuðumst við í línu sem ýmist sveigði til hægri eða vinstri á milli þess sem hún hélt bein áfram. Við héldum för okkar áfram um hringtorg, eftir strætum, upp tröppur, inn í Myndlistaskólann þar sem þau sátu nú. Þegar þau opnuðu augun aftur blöstu margvíslegar línur við, sumar náðu yfir allan pappírinn meðan aðrar voru fínlegar í einu horni. Krakkarnir bleyttu nú fingur sína og snertu línurnar á þeim stöðum sem þau vildu leggja áherslu á, t.d. þar sem þau höfðu numið staðar á leiðinni.
Því næst voru myndirnar hengdar upp og við ræddum það sem við sáum. Hvað gátu allar þessar ólíku línur táknað? Hvaða hughrif kölluðu þær fram?
Við spjölluðum um landakort og vegahandbækur, töluðum um allar þær endalausu og ósýnilegu teikningar sem væru í loftinu eftir ferðalög okkar og hreyfingar. Við töluðum um samgöngur og líkamann og veltum því fyrir okkur hvort línurnar þeirra gætu verið æðakerfi, taugakerfi, lófalínur, meltingarvegur, tölvurásir, fjarskiptalínur eða árfarvegir.
Því næst hélt hópurinn inn á bókasafn þar sem Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt var með fyrirlestur. Hún sýndi þeim myndir af íverustöðum manna og dýra frá ýmsum stöðum í heiminum. Við sáum hús sem voru reist við margvísleg skilyrði: Við síki, í frumskógi, út í sveit og í borg. Við skoðuðum fjölbýli og einbýli, hús sem teygðu sig upp til himins og önnur sem hvíldu þung á jörðinni, hús sem voru hluti af náttúrunni og önnur sem voru greinileg mannvirki. Guja velti upp spurningum eins og: Hvað er hönnun? og því skyldum við vera að finna hlutunum nýtt form?