Við skoðuðum kortið sem þau höfðu dregið upp deginum áður af ferðalagi þeirra að heiman og í Myndlistaskólann.

Á göngum skólans var búið að hengja upp ýmsar myndir til innblástur, þar voru borgarmyndir, form úr náttúrunni, mannvirki, samgöngutæki, byggingar, lífverur o.s.frv. Börnin fóru nú fram með gegnsæjan pappír og drógu í gegn það sem vakti áhuga þeirra á myndunum. Síðan mátuðu þau teikninguna við kortið, klipptu hana út og límdu. Sumir klipptu einnig myndir úr blöðum og bættu við kortin.

 


Við héldum síðan áfram með húsin. Til að halda áhuga þeirra og athygli gekk kennari á milli, hvatti nemendur, hlustaði á óskir þeirra, reyndi að greiða úr tæknilegum vanda og leiddi þau áfram. Kennari lyfti af og til húsi upp til að benda hópnum á hugvitsamar úrlausnir. Smám saman læddi hann að annars konar efni eins og marglituðum þráðum, lituðum pappírsrifrildum, trépinnum og vír. Á einn vegg var búið að hengja stóra pappírsörk og fyrir framan voru akrýllitir í túpum. Til að brjóta vinnuna upp fékk hver hópur að blanda þá liti sem honum fannst tilheyra sínu svæði og framkalla litasýnið á örkina.