Hópurinn hittist út í Gróttu. Við komum okkur fyrir í fjöruborðinu og nemendur horfðu út á haf. Við ímynduðum okkur að við værum á stærð við fingurbjörg og hefðum rétt numið land eftir langferð á sjó. Á þessu landi væru engin mannvirki, hér þyrftum við að nota eigið hugvit til að komast af. Á hverju ættum við að byrja? Við ræddum mismunandi aðstæður í heiminum öllum, veðurfar, hættur og hamfarir. Hvernig væru aðstæður á Íslandi? Nú þyrftum við útsjónarsemi til að geta nýtt það byggingarefni sem til væri í fjörunni.

Til viðbótar komum við með snæri, fötur, trépinna og skóflur. Hópnum var skipt í þrennt, einn við flæðarmálið, annar á sandinum og sá þriðji við grjótgarðinn. Í þessu verkefni vann hver hópur fyrir sig. Þegar hóparnir höfðu unnið um stund voru þeir látnir skipta um stað. Hver hópur glímdi því við allar aðstæður um leið og þau þurftu að sleppa takinu á sínu svæði sem oft reyndist erfitt. Við ræddum hvernig byggðalög taka mið af þeim sem þar búa hverju sinni og hvernig þeir sem taka við breyta út frá sínum hugmyndum.

Þeir sem voru nálægt flæðarmálinu fóru flestir í að reisa flóðgarða, þeir sem voru á sandinum nýttu sér þang og þara, kuðunga og fleira til byggingarefnis og grjótgarðsfólkið fékk leir til að hjálpa sér við byggingarnar. Við ræddum hvernig ólíkar aðstæður skapa fólk.

Þeir sem alast upp á klettum geta ekki verið lofthræddir. Hvernig hefur sjórinn áhrif á búsetu fólks? Á þessum þremur tímum sem við dvöldum þarna var tilfinnanleg breytingin á flóði og fjöru þannig að flæddi yfir húsin eða nýjar eyjar risu úr hafi.