Kennari hafði tekið ljósmyndir af pappírs húsum barnanna. Nú var þeim varpað upp á stóran skjá þannig að hvert hús fyllti skjáinn. Við skoðuðum byggingar hvers annars og ræddum þær. Sjónarhornin voru fjölbreytt. Við horfðum yfir húsin, gægðumst gegnum glugga eða litum á mismunandi hliðar. Það var gefandi að skoða byggingarnar í þessari stærð og börnin gátu mátað sig inni í húsunum. Við veltum fyrir okkur hvernig væri að búa þarna sem manneskja? Hvaða hlutverk gæti þessi bygging þjónað? Sumar byggingar minntu á tónleikasali, aðrar íþróttahús, þriðju skemmtigarða, fjórðu fjölskylduhús o.s.frv. Við áréttuðum það að svona ynnu hönnuðir, þeir þyrftu iðulega að fara út fyrir rammann sinn og setja sig í spor annarra.