Við héldum síðan aftur inn í stofurnar, innblásin af húsum hvers annars og héldum áfram. Kennari kynnti snæri, nálar, títuprjóna, víra og trépinna. Auk þess benti hann þeim á að litur væri eins og efni og að þau skyldu ígrunda hvert efni sem þau notuðu. Snærin væri hægt að nota til að festa svalir, grindur, girðingar, hæðir, þak eða til að sauma í húsin sjálf. Við skoðuðum hvernig pappír gat hleypt ljósi í gegnum sig. Börnin kynntu sér hinn nýja efnivið og unnu af kappi.

Kennari hafði tekið ljósmyndir af pappírs húsum barnanna. Nú var þeim varpað upp á stóran skjá þannig að hvert hús fyllti skjáinn. Við skoðuðum byggingar hvers annars og ræddum þær. Sjónarhornin voru fjölbreytt. Við horfðum yfir húsin, gægðumst gegnum glugga eða litum á mismunandi hliðar. Það var gefandi að skoða byggingarnar í þessari stærð og börnin gátu mátað sig inni í húsunum. Við veltum fyrir okkur hvernig væri að búa þarna sem manneskja? Hvaða hlutverk gæti þessi bygging þjónað? Sumar byggingar minntu á tónleikasali, aðrar íþróttahús, þriðju skemmtigarða, fjórðu fjölskylduhús o.s.frv. Við áréttuðum það að svona ynnu hönnuðir, þeir þyrftu iðulega að fara út fyrir rammann sinn og setja sig í spor annarra.