Kennarar buðu nemendur velkomna og leiddu þá síðan strax inn í hljóðherbergi Rikke Houds og Elísabetar Indru Ragnarsdóttur. Þar var dvalið um stund og hlýtt á verkin. Því næst tóku nemendur sérhannaðar sessur Söru Maríu Skúladóttur og settust í anddyrinu fyrir framan verk Hildigunnar Birgisdóttur. Kennarar sögðu þeim frá Listasafni Íslands og spurðu nemendur spurninga, sumir höfðu heimsótt safnið en ótal margir voru að koma þangað í sitt fyrsta sinn. Nemendum var sagt frá sögu hússins: fyrst hafi það verið ísgeymsla síðan dansstaður og nú væri það Listasafn landsins. Við töluðum um mismunandi listaverk og báðum nemendur að nefna nokkur dæmi.

Síðan beindum við talinu að uppsprettu sýningarinnar og Myndlistaskólanum í Reykjavík. Við ræddum hvað gert væri í myndlistaskólum, töluðum um aldursdreifingu nemenda og fjölbreyttar vinnuaðferðir. Loks komum við að uppsprettu sýningarinnar Dyndilyndi og verki Hildigunnar Birgisdóttur sem innihélt póstkort með myndum af húsum barnanna. Vinnuferlinu var lýst gaumgæfilega, nemendum sagt frá hinum einfalda efniviði sem notaður var og hvernig hægt er að búa til heil ævintýri úr smálegu efni ef áhugi og ástríða er fyrir hendi. Við kennararnir skiptumst á að tína kort niður af kortastandinum og sýndum nemendum.Við ræddum mismunandi þarfir dýranna, langanir og hugvitsamlega gerð smáhýsin. Svo sögðum við þeim hvernig þessi hús urðu uppspretta listamanna og aflgjafi fyrir listaverk sem nú höfðu sprottið fram og voru til sýnis með einum og öðrum hætti í Listasafninu. Við reyndum að leggja áherslu á ólíkar birtingarmyndir sköpunar, hvernig hugmyndir og áhrifavaldar flögruðu í kringum okkur og að ekkert væri sprottið úr engu. Þessir listamenn fengu níu mánuði til meðgöngu verka sinna eftir að hafa fengið að skoða hús barnanna og hér væri uppskeruna að sjá. Listamennirnar komu úr ólíkum áttum , sumir fundu uppsprettunni farveg í hljóðum eins og Magga Stína, aðrir veltu fyrir sér íbúum húsanna og lögðu til orð og tóna eins og Megas sem skóp m.a. uglund, haflóu, maðkríu og fjallasel.

Því næst bentum við þeim á hús ánamaðksins, skoðuðum það vel og snerum okkur síðan í hálfhring þar sem flík Munda stóð innblásin hinum sama ánamaðki. Við ræddum hönnum og spurðum þau hvort þau höfðu gert sér grein fyrir að hver einasti hlutur í kringum okkur væri hannaður. Bak við hverja flík sem við klæddumst væri einhver sem hefði ákveðið lit, mynstur, saum, snið og efni.

Því næst horfðum við út um gluggann og skoðuðum nýjan inngang Theresu Himmer og Kristjáns Eggertssonar. Nemendur höfðu flestir kannað hann við komuna að safninu, við fórum ýmist út og könnuðum hann enn frekar eða ræddum um hugsunina í verkinu. Hvers vegna var inngangurinn þrískiptur og hvaða dýrategundir voru boðnar velkomnar?

Síðan skiptum við nemendum í tvo hópa og komum okkur fyrir sitt hvorum megin við þilið í salnum til hægri við móttökuna en hann nýttum við sem vinnustofu. Við byrjuðum á því að klippa niður tvær langar arkir og settumst svo á gólfið með nemendum kringum arkirnar. Kennari spurði nemendur síðan til hvers gluggar væru? Nemendur svöruðu meðal annars: Til þess að halda veðrum og vindum úti, til að hleypa lofti inn, til að fá ljós í húsin. Allt mikilvægar og góðar staðreyndir í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Við náðum næst í límbönd og sýndum þeim hvernig hægt væri að teikna með límbandsrúllu og hvernig hægt væri að kljúfa rúlluna til að fá mjórri línur. Nú væru þau hönnuðir og á þessa löngu örk áttu þau að teikna upp glugga með límbandinu. Við nefndum ólíkar tegundir af gluggum og mikilvægi þess að gera stundum eitthvað skrítið til að koma hreyfingu á hugann.

Nemendur voru fljótir að detta inn í verkið og fram spruttu gluggar af ótal stærðum og gerðum. Nemendur tóku að tengja saman gluggana sína og búa til leiðir þar á milli. Síðan stóðum við upp og gengum úr stofunni að verki Kristínar Ómarsdóttur. Enn ræddum við mismunandi birtingarform sköpunar og ótal hjáleiðir hennar. Nú værum við stödd hjá listamanni sem ynni með orð. Kristín varð eins og hinir listamennirnir fyrir innblæstri af litlu húsunum og út sprungu hátt á þriðja tug einleikja og samræðna fyrir leikhús í kistu. Nemendur úr Myndlistakólanum í Reykjavík úbjuggu síðan leikmuni sem hengu á veggum og ofan í kistunni. Við höfðum skrifað nokkra af titlum verkanna á miða og stungið þeim í hatt. Nemendur fengu nú að draga miða úr hattinum og lesa þá upp: Ritarinn í þinghúsinu, Óðalseigandi fer um yfirgefið land, Stúlka með sleikibrjóstsykursfingur, Úlfur í sólbaði, Blóðsugan í garðskálanum, Kona föst í matvörubúð, Hestur í baðkari, Slátrari í gleraugnabúð, Verkalýðsforingi fegurðarinnar og börnin smjöttuðu á orðunum. Því næst færðum við okkur um set að tröppunum sem liggja niður í kjallara og að verki danshöfundarins Margréti Bjarnadóttur sem notar einmitt líkamann í verkum sínum. Þar ákvörðuðu efnisbútar og reipi hreyfingar þáttakenda og nemendur eltu kennarann sem smeygði sér yfir og undir verkið.

Dagskrá var ekki nákvæmlega eins alla daga og vísuðu kennarar í verk listamanna eftir því sem hæfði hverri stund. Verk Hugins Þórs varð nemendum umfjöllunarefni á leið sinni um salinn, brúðuleikhús Kristins G. Harðarsonar, verk Tinnu Gunnarsdóttur, Hillur/Syllur auk leikrita Hörpu Arnardóttur sem við vorum stundum svo heppin að fá að fylgjast með á æfingum eða vera viðstödd sjálfa sýninguna.

Áfram héldum við störfum okkar inni í vinnustofunni en nú voru gluggarnir orðnir að eyjum eða landsvæðum og verkefnið að búa til byggingar úr niðurklipptum pappír eftir að kennari hafði bent þeim á mögulegar aðferðir. Mismunandi var eftir hópum hvernig leitt var inn í verkin en í öllum tilfellum settu nemendur sig í spor dýra sem þau ímynduðu sér að væru á stærð við fingurbjörg. Stundum bjuggu þau til hreiður, stundum göng og stundum skjól en í öllum tilfellum hurfu þau inn í verkefnin og smábyggingar spruttu fram. Nemendur notuðu síðan stóru örkina sem grunn fyrir byggingarnar.

Af og til skimuðu kennarar yfir svæðið til að ákveða hvernig halda skyldi áfram því þetta var leiðangur sem tók á sig óvæntar stefnur og og bregðast þurfti við hinum ótal birtingarmyndum barnanna á degi hverjum.

Ýmist hengdum við örkina upp á vegg þar sem nemendur létu byggingar áfram vaxa, bjuggum til þrívíða sívalninga úr örkinni, hengdum upp hluta af henni þannig að hinn hlutinn snerti gólf, klipptu örkina niður, allt eftir því sem hæfði rýmiskennd dagsins. Einn daginn fengu nemendur það verkefni að búa til leiðir með límbandinu frá gluggum niður á gólf og tengja þannig verkefnin saman. Annan dag ákváðum við að klippa út gluggana þannig að nokkrir unnu saman og bjuggu til landssvæði sem hægt var að stilla upp hér og þar í salnum. Síðasti dagurinn fór í að skanna svæðið og athuga hvar hægt væri að halda áfram með verkin, stundum þurfti að leggja áherslu á eitthvað sérstakt hús, byggja við það. Búa til brýr, samgöngutæki eða þess háttar. Á sýningartíma var salurinn opinn sýningargestum og komu nemendur gjarnan aftur á safnið með foreldra sína til að líta á þróunina og sýna uppskeruna.