Sýningin Dyndilyndi – verði gjafa gagnstreymi er framlag Myndlistaskólans í Reykjavík til Barnamenningarhátíðarinnar 2010.
Myndlistaskólinn hefur á sínum sextíu og þremur árum lagt áherslu á vandað og framsækið starf með börnum. Landskunnir og ólíkir listamenn hafa blásið skólanum líf og næringu og gera enn. Undanfarin ár hefur eitt af þróunarverkefnum skólans verið Listbúðir í samstarfi við grunnskólanemendur af Reykjavíkursvæðinu. Þetta þróunarverkefni hefur orðið til þess að breiðari hópur barna hefur átt þess kost að kynnast starfi og umhverfi skólans óháð búsetu og efnahag. Heilir árgangar átta ára barna hafa komið með kennurum sínum og unnið í eina viku með starfandi listamönnum og hönnuðum í hvetjandi umhverfi skólans. Unnið hefur verið út frá ýmsum kveikjum, m.a. stærðfræði, náttúrufræði, byggingarlist og skipulagsmálum. Síðastliðið ár tóku um 300 reykvísk börn þátt í Listbúðunum: Himinn, jörð og byggðin á milli. Börnin völdu dýr sem lifa á landi, í vatni/sjó, lofti eða neðanjarðar. Þau huguðu að þörfum og löngunum hvers dýrs og úr einföldum pappírsrenningi náðu þau að töfra fram ævintýraheim í formi smágerðra líkana sem sum komust fyrir í lófa.
Okkur í Myndlistaskólanum langaði til að fá verkin til að halda áfram að vaxa og því fékk skólinn til liðs við sig hóp listamanna úr ólíkum listgreinum. Hópurinn heimsótti skólann og skoðaði afrakstur Listbúðanna í þeirri von að þau yrðu þeim uppspretta. Oft er það svo að börn vinna út frá verkum listamanna en hið gagnstæða er sjaldgæfara. Ekki þarf að fjölyrða um hugljómun hópsins því uppskeruna gefur að líta hér á sýningunni í margvíslegum birtingarmyndum.
Þátttakendur eru:
Huginn Þór Arason myndlistarmaður,Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður, Kristín Ómarsdóttir rithöfundur, Magga Stína tónsmiður, Borghildur Ína Sölvadóttir grafískur hönnuður, Harpa Arnardóttir leikkona, Mundi athafnamaður, Kristinn G. Harðarsson myndlistarmaður, Megas tónlistar- og textaverkamaður, Margrét Bjarnadóttir danshöfundur, Hilmar Örn Hilmarsson tónverkamaður, Rikke Houd hljóðheimildahömuður, Elísabet Indra Ragnarsdóttir dagskrárgerðarkona, Rán Flygenring grafískur hönnuður, Sara María Skúladóttir klæðskeri, Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarkona, Theresa Himmer arkitekt og hönnuður, Kristján Eggertsson arkitekt, og Margrét H. Blöndal myndlistarmaður sem var leiðangurstjóri.
Nú liggur straumurinn til barnanna á ný. Á meðan á sýningunni stendur verður um 200 börnum frá nágrannasveitafélögum boðið að taka þátt í örlistbúðum, hálfan dag í senn. Börnin munu velta fyrir sér verkum listamannanna og nota hugmyndir og kveikjur þaðan í sameiginlega innsetningu sem mun vaxa á meðan á sýningunni stendur. Þetta er því nokkurs konar hringferð – þar sem óskin verði gjafa gagnstreymi er höfð að leiðarljósi – börn kveikja hugmyndir hjá fullorðnum, listamennirnir kveikja svo aftur nýjar hugmyndir hjá börnunum og svo koll af kolli.
Í tengslum við sýninguna verður að auki efnt til málþings um byggingarlist sem kveikju í verk- og listgreinum. Opnaður verður hugmyndabanki með verkefnum sem orðið hafa til í Myndlistaskólanum síðustu misserin og tengjast rýmistilraunum. Heimasíðan mun standa eftir sem sjálfstæð heimild og námsgagn sem lifir eftir sýninguna og gefur heildarsýn á alla þætti verkefnisins.