Listbúðunum, snerti kvikuna í okkur öllum. Hún fjallaði um lífið sjálft en samt var ekki lífveru að sjá. Húsin, verk barnanna, voru smá, viðkvæm og umkomulaus, snortin alúð og natni skaparanna. Þarna mátti greina smámynd af veröldinni, samkennd og ógn og hinir fjarverandi íbúar voru ýmist hégómlegir, blíðir, feimnir, grimmir, úrræðagóðir eða slóttugir. Þessa uppsprettu varð að umgangast með gát því annars var hætta á að verkin yrðu tröðkuð niður eða neistinn í þeim slökktur með mannalátum. Það þurfti liðsmenn sem gátu komið inn í vinnuferlið og togað það áfram, gaumgæft ólíka kima og búið til nýtt pláss. Hlutdeild í sýningunni á fólk sem segir sögur, skynjar blæbrigði, kímni, tóna og ryþma, raðar saman eða leikur sér með liti, form og orð, leyfir sér að bulla, þorir að fara út fyrir rammann, grípur augnablikið, gerir tilraunir og umfram allt ber virðingu fyrir viðfangsefninu.
Margrét H. Blöndal by Dyndilyndi

Margrét H. Blöndal heldur utan um þræði og leiðir verkefnið áfram. Margrét mun einnig sjá um listsmiðju ásamt Hildigunni Birgisdóttur sem haldin verður á virkum dögum meðan á sýningunni stendur í Listasafninu. Þar verður grunnskólabörnum boðið að koma dagstund og vinna út frá hughrifum sýningarinnar.

Það hefur verið hugljómandi að fylgjast með sköpunarferlinu frá byrjunarreit Myndlistaskólans í gegnum þátttakendur með hjáleiðum hvers og eins alla leið til Listasafnsins. Sköpun er einmitt svo óumræðanlega heillandi því hún er ótemja í eðli sínu og teymir mann gjarnan á óvænta staði til ólíklegustu birtingarmynda. Dyndilyndi – verði gjafa gagnstreymi er ekki hefðbundin barnasýning því hinir eldri settu sig ekki endilega í stellingar þess sem vinnur sérstaklega fyrir börn heldur voru þeir trúir eigin vinnulagi. Við treystum því hins vegar að þegar listamaður er trúr sínu verki jafnframt því að taka óhræddur inn strauma og ófyrirséðar stefnur þá verður eitthvað til sem kalla má töfra og unnendur þeirra þarf ekki að aldursgreina.

Ungir sem aldnir í fjölskrúðugri fánu eru þátttakendur og þáðu allir boð um að vera með. Ástæðan hefur líklega verið sú að uppsprettan, þ.e. verkin úr